Viljayfirlýsing stjórnar LSA um samruna við Brú lífeyrissjóð

Stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Akureyrarbæjar (LSA)  hefur samþykkt að hefja viðræður um samruna sjóðsins við Brú lífeyrissjóð frá og með 1. janúar 2025, þannig að sjóðurinn verður sérstök deild í þeim sjóði.  Slíkur samruni  felur í sér að réttindi og réttindaávinnsla sjóðfélaga verður óbreytt og að eignir og skuldbindingar sjóðsins verða algjörlega aðskildar frá öðrum eignum og skuldbindingum Brúar lífeyrissjóðs.
Viljayfirlýsing þessi er gefin út á grunni bókana bæjarráðs Akureyrarbæjar annars vegar og stjórnar Kjalar stéttarfélags hins vegar, þar sem framangreindir aðilar samþykkja að farið verði í fýsileikakönnun á samruna LSA og Brúar.
 
Ef viðræður leiða til tillögu um samruna sjóðanna verður sú tillaga, að fengnum  staðfestingum bæjarráðs og stjórnar Kjalar stéttarfélags, lögð fyrir ársfund sjóðsins á árinu 2025 til samþykktar. Samþykki ársfundur sjóðsins tillöguna verður hún send Fjármálaeftirlitinu til staðfestingar. Þar til slík staðfesting fæst verður rekstur sjóðsins með óbreyttu sniði í höndum Stapa lífeyrissjóðs samkvæmt rekstrarsamningi þar um.
 
Nánari upplýsingar veitir Jóhann Steinar Jóhannsson, framkvæmdastjóri.