Verðtrygging lífeyris hjá Lífeyrissjóði starfsmanna Akureyrarbæjar getur verið með tvennum hætti. Annað hvort velur lífeyrisþeginn að fylgja eftirmannsreglu eða hann fylgir meðaltalsreglu. Langflestir lífeyrisþega eru á meðaltalsreglu.
Upphaflegur úrskurður um fjárhæð lífeyris er algerlega óháður því hvorri reglunni er fylgt. Þetta hefur aðeins áhrif á hvernig verðtryggingu hans er háttað í framtíðinni. Þeir sem eru á eftirmannsreglu fylgja breytingum á launum eftirmanns síns. Þeir sem eru á meðaltalsreglu fylgja þróun launavísitölu Hagstofu Íslands þ.e. vísitölu lífeyrisskuldbindinga fyrir opinbera starfsmenn en hún miðast við vísitölu fastra launa opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu skv. lögum nr. 1/1997 um lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins.
Einn af kostunum við að vera á meðaltalsreglu er sá að þá þarf ekki að fylgjast með þróun launa eftirmanns. Það einfaldar alla þjónustu viðkomandi lífeyrisþeganum og tryggir honum verðtryggingu lífeyris í samræmi við þróun launavísitölu í landinu. Hvort hún á endanum reynist betur en eftirmannsreglan getur enginn sagt til um. Ef sjóðfélagar óska ekki sérstaklega eftir því að verða settir á eftirmannsreglu, fylgir verðtrygging lífeyris þeirra meðaltalsreglu.