Á aukaársfundi Lífeyrissjóðs starfsmanna Akureyrarbæjar sem haldinn var þann 4. október 2018 voru meðal annars lagðar til breytingar á samþykktum sjóðsins. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur samþykkt breytingarnar og hafa nýjar samþykktir því tekið gildi.
Breytingarnar snúa einkum að þremur þáttum:
Um síðustu áramót urðu breytingar á almannatryggingalöggjöf sem heimilar töku hálfs lífeyris frá almannatryggingum á móti hálfum lífeyri frá lífeyrissjóðum. Því var ákveðið að veita heimild í samþykktum LSA til að sjóðfélagar geti farið á hálfan lífeyri gegn því að viðkomandi verði ekki í meira en hálfu starfi sem veitir aðild að sjóðnum. Umsóknir um hálfan lífeyri má finna hér.
Í samþykktum sjóðsins var gert ráð fyrir að bæjarstjóri væri alltaf formaður stjórnar. Sú staða kann hins vegar að koma upp að það fari betur á því að annar starfsmaður bæjarins sitji í stjórn heldur en bæjarstjóri. Með hliðsjón af því var 4. gr. breytt þannig að stjórnarformaður skuli tilnefndur af bæjarstjórn og vera annað hvort bæjarstjóri eða sviðsstjóri fjármálasviðs bæjarins.
Samkvæmt eldri samþykktum sjóðsins var gert ráð fyrir að mótframlag launagreiðenda í sjóðinn væri 6%. Samkvæmt lögum um lífeyrissjóði skal lágmarksmótframlag hins vegar vera 8%. Bæjarráð Akureyrarbæjar samþykkti hækkun úr 6% í 8% í maí 2017 og var því ákveðið að hækka mótframlag í samþykktum sjóðsins til samræmis, þar sem það á við.